Thursday, January 5, 2012

Meira eineltisbla.

Halló Austurbæjarskóli, heimili brostinna vona.

Ég verð svo reið þegar ég hugsa aftur til grunnskólaára minna. Þessi 10 ár, sem áttu að móta mig, gerðu mig á endanum að engu.
Það var traðkað yfir mig, mér var gert að líða eins og ég væri holdsveik, útskúfuð, ekkert!

Ég hef aldrei fengið að vita af hverju þið hötuðuð mig svona mikið, hvað gerði ég ykkur annað en að hafa önnur áhugamál en þið? Ég var strákastelpa, ég var Grunge-krakki í rifnum gallabuxum, ég hafði engan áhuga á að ganga í bleiku og glimmeri og tína blóm.
Var það allt og sumt?

Og þegar við urðum eldri, og fólk fór að átta sig á því hvað væri í gangi, hvernig gátuð þið sitið þarna og drullað yfir mig, hvernig gátuð þið verið svona ill?

Það voru tveir, TVEIR kennarar í öllum skólanum, sem spurðu mig hvað væri að, TVEIR, af öllum þeim sem kenndu mér eða komu nálægt mínum málum. Tveir, og það geislaði af mér hvað ég væri langt niðri, mætti í skólann og í staðinn fyrir að læra sat ég úti í horni og skar mig, mætti með öryggisnælur fastar í random líkamspörtum.
En, þið voruð of upptekin við að troða pappír inn á brjóstahaldarana ykkar og hlæja að skrýtnu stelpunni.

Ég hef alltaf verið þakklát ákveðnum hóp úr bekknum mínum, sem tók aldrei þátt, talaði við mig sem jafningja en ekki eitthvað fatlafól, sem tók mér fyrir mig og dæmdi ekki hvað ég væri "skrýtin," það voru aðallega hinir bekkirnir sem köstuðu grjóti í hausinn á mér á leiðinni heim úr skólanum, hlógu ef ég missteig mig í íþróttum og gat ekki staðið upp og öskruðu á mig á göngunum að ég væri "krakkhóra," kaldhæðnislegt þar sem ég hef hitt mörg þeirra niðri í bæ um helgar, þau útúrfokkingdópuð og subbuleg og muna ekki eftir mér.
Gamanaðessu!

Ég er brotin og ég er skemmd eftir þessi 10 ár, en ég nenni því ekki lengur, mig langaði bara að losna við þetta úr hausnum á mér og býst ekki við svörum.
Ég efast um að ég fái að vita hvað í andskotanum ég gerði þeim, og eins forvitnilegt og það væri að vita það þá er mér skítsama af því ég ætla að sleppa takinu á orðum sem einhverjir ónytjungar hreyttu í mig fyrir 10+ árum síðan, ég er búin að leyfa því að draga mig niður einum of lengi, ég ætla að púsla sjálfri mér saman og halda áfram.

Þessir hálfvitar sem gerðu mér lífið leitt mega eiga sig, ég vona bara að karma læðist upp að þeim á endanum því ég hef ekki orkuna í að hata þau lengur.

“Those who are free of resentful thoughts surely find peace.” - Buddha

No comments:

Post a Comment